Parmesankjúllarétturinn!

Jæja eins og Sara sagði þá tókum við ágætis jólafrí frá bloggi en munum vera duglegar að blogga núna. Núna í fimm daga er ég búin að liggja í verstu flensu sem ég hef fengið og fengu því miður bragðlaukarnir mínir að fjúka á meðan svo ég hef ekki eldað neitt gott síðustu daga sem er alveg glatað. Það sem ég ætla að leika við þá þegar þeir mæta til baka og vonandi fáið þið lesendur góðir að njóta þess! En yfir í uppskrift dagsins. Á mínu heimili hefur sú hefð skapast að hafa kjúkling á sunnudögum, oftast heilan kjúkling í ofni en svo auðvitað breytir maður til. Síðasta sunnudag eldaði ég parmesankjúklingaréttinn (með greini af ástæðu) minn sem er í rauninni mín útfærsla af parmesankjúklingaréttinum hennar mömmu. Hann klikkar aldrei og hingað til hafa allir sem hafa smakkað hann verið ánægðir en hann er ekki beint hollustufæði svo hann fær að vera svona spari!

Innihald:
4 kjúklingabringur
2,5 desilítrar rjómi (má nota bræddan rjómaost)
2-3 hvítlauksrif (eftir smekk)
2,5 desilítrar rifinn parmesanostur
1 súputeningur
Ólífuolía

Stillið ofninn á 200°c (190°c blástursofn). Penslið smá ólífuolíu í mátulega stórt eldfast mót. Rífið svo parmesanostinn með rifjárni, merjið hvítlauksrifin, myljið súputeninginn og hellið rjómanum í eldfasta mótið. Blandið svo öllu vel saman. Hreinsið kjúklingabringurnar og leggið á sósuna í eldfasta mótinu og ausið smá sósu yfir áður en þið setjið réttinn inn í ofn.

Eldunartíminn ætti að vera 30-40 mín, fer eftir stærð bringnanna en best er að prófa að skera í þykkustu bringuna til þess að vera viss um að þær séu nægilega eldaðar áður en rétturinn er borinn fram. Einnig er mikilvægt að ausa reglulega sósunni yfir bringurnar á meðan rétturinn er í ofninum svo að osturinn brenni ekki.

photo-4

Rétturinn er svo borinn fram með hrísgrjónum og svo annað hvort salati, gufusoðnu og léttsteiktu grænmeti eða hvítlauksbrauði eins og ég gerði á myndinni sem fylgir með þessu bloggi. En auðvitað er fólki frjálst að prófa hvaða meðlæti sem er með! Ef maður er ekkert að telja kaloríurnar er um að gera að hafa líka gott brauð með og nota til þess að ná allri sósunni af disknum.

Verði ykkur að góðu, Abbý

P.s. ég er alveg búin að sjá það að Sara (ljósmyndarinn í hópnum) þarf að taka mig á námskeið í matarmyndum 😉

Þessi færsla var birt undir kjúklingaréttir. Bókamerkja beinan tengil.

2 svar við Parmesankjúllarétturinn!

  1. Ég fæ vatn í munninn! Þetta er uppáhalds kjúklingarétturinn minn 🙂

  2. Stella A. sagði:

    Giska á að þetta sé gott, en myndin er ekki lystaukandi…..

    Kveðja,

    S.

Skildu eftir svar við Þórdís Valsdóttir Hætta við svar